Satellite Internet Service
Hit Counter

8/13/2004

Bloggandi blíða

Einkennilegt hvað þarf lítið til að hafa áhrif á manns daglegu rútínu. Hér hefur ekki verið bloggað síðan um miðjan júlí. Oft hef ég verið sest niður við tölvuna og hugsað:„Jæja, nú bloggar maður“. En ekkert gerist. Horfi á auðan skjáinn og áður en langt um líður er hugurinn floginn eitthvert allt annað. Eða þá að maður er staddur einhverstaðar út í bæ. Á skemmtilegar samræður við félagana eða sér skondin atvik og hugsar: „Ég verð að blogga um þetta!“ Og annað hvort verður ekkert af því eða þegar komið er á prent þá er sagan kannski ekkert fyndin lengur. Algengt vandamál – og hvimleitt.

Sumarfríið er búið og það er búið að mála blokkina. Já, um leið og mínu sumarfríi lauk þá hurfu málarameistararnir á brott. Dæmigert. Hef því yfir litlu að fjasa. Sem er einkennilegt fyrir undirritaða. Sífjasandi. Eða kannski er það veðrið sem allir dásama þessa dagana. Eflaust fara Plús- og Heimsferðir á hausinn núna í ágúst. „Á spáni er gott að djamma og djúsa“ söng Laddi hér um árið. Nú þurfum við ekkert að fara til Spánar. Höfum þetta allt saman hérna á klakanum- eða réttara sagt hitabeltiseyjunni. Hljómar vel: Hitabeltiseyjan Ísland!!

Horfði á fréttir núna í vikunni. Það var verið að taka viðtal við „fólkið á götunni“ varðandi blíðuna. Tekið vöru viðtöl við nokkra útlendina sem fundust víst veðrið hér á landi ekkert spes. Það hafði komið hingað og ætlast til þess að hér væri rigning og rok. Ég þekki ekki einn mann sem hefur fundist það svona „æðislegt“ að vera í rigningu og roki hér heima. Þekki heldur engan sem hefur borgað marga tugi peninga til þess að komast í hressilega rigningu og stórviðri. Þess vegna skildi ég ekki þessa vonsku út í veðurblíðuna. Fannst þetta bara skrítið fólk.

Síðast liðin föstudag varð stórvinkona mín Auja þrítug. Hélt fína veislu. Sú allra fínasta veisla sem ég hef farið í lengi (þar með talin míns eigins útskriftarveisla, haha). Í þessari umræddu veislu var t.d. ekki helt freyðivíni í glösin fyrir mann. Nei,nei. Maður fékk bara sína flösku sem maður gat algerlega stjórnað hversu mikið var drukkið úr henni. Mjög sniðugt. Og hentar eflaust vel stabýlu fólki. En þarna var ekkert sérstaklega stabýlt fólk. Áður en korter var liðið af borðhaldinu voru gestirnir komnir í meting hver væri komin neðst í flösku sinni. Þetta stuðlaði að dotlu. Dotlu sem engin þörf er á að útskýra. Það var akkúrat út af þessu dotlu sem ég var frekar„lasin“ á laugardaginn. En veislan var góð, góður matur, góður félagsskapur, gott vín. Auja á skilið þrefalt húrra fyrir þetta. Húrra-húrra- húrra.

Og þar sem farið er að tala um Auju vinkonu mína...... hún skrifar ansi góðan pistil í dag á sínu bloggi. Merkilegar vangaveltur. Það er þetta með líkamann – útlitið. Og hvað við gerum til þess að halda útlitinu.... eða halda því ekki. Og hve mikið líkaminn eða líkamspartar geta virkað aðlaðandi á aðra eða ekki. Endilega lesið þennan pistil. Fjári góður. Punktur.

„Segðu ekki allt sem þú veist, trúðu ekki öllu sem þú heyrir og gerðu ekki allt sem þig langar til“