Satellite Internet Service
Hit Counter

7/06/2004

Það er leikur að læra...
Já, mikil alsherjarlukka er það að vera alltaf að læra eitthvað nýtt. Lífið er endalaus skóli. Manneskjan er látlaust að upplifa nýjar aðstæður sem þarf að aðlaga að hugsun sinni – eða aðlaga hugsun sína að aðstæðunum. Ekki líður sá Dagur sem við gerum eitthvað sem við höfum aldrei gert áður þó að um smávægilega hluti sé að ræða. Svo koma alveg nýjar aðstæður – ný hugsun sem manneskjan verður að vinna úr og fá einhvern botn í. Hef verið svolítið þessi manneskja.

Bílakaup:
Ég hef aldrei átt bíl. Fyrir utan jeppagarminn sem pabbi minn gaf mér í afmælisgjöf hér um árið, allsherjar sjón- og hljóðmengun. En ég hef aldrei keypt bíl. Og einhvern veginn hélt ég að það að fara að KAUPA bíl væri eins og að KAUPA sér gallabuxur. Maður fer inn í búð sem hefur fallegar gluggaskreytingar. Maður skoðar – mátar kannski – skoðar aðeins meira – tekur ákvörðun um að rassinn sé ekki of stór í buxurnar – labbar að afgreiðsluborðinu – segir: „ég ætla að fá þessar, takk.“ – réttir fram kortið – borgar – færð glaðlegt „takk fyrir viðskiptin“ bros frá afgreiðsludömunni um leið og hún réttir þér pokann með nýju buxunum. Fer heim – í nýju buxurnar – ánægð með kaup dagsins.
Svona er þetta nefnilega ekki hjá bílasölum. Komst að því. Ég fór inn í svoleiðis búð – skoðaði – mátaði – skoðaði meira – mátaði aðeins meira – tók ákvörðun. „Ég ætla að fá þennan, takk.“ Sagði ég brosandi við sölumanninn og var í því að fara að rétta fram kortið til að borga. Þá tóku við aðstæður sem ég hef ekki lent í áður. Þessi svakalega skriffinnska. Eftir að hafa setið lengi vel, kófsveitt við að reyna að svara spurningum sem ég var ekki alveg að átta mig á, þakkaði sölumaðurinn mér fyrir viðskiptin og sagði að ég gæti komið eftir nokkra daga að sækja bílinn. Eftir nokkra daga!!!!! Hvað hélt maðurinn? Að ég væri búin að rétta fram kortið til að bíða eftir vörunni? Þannig að ég fór tómhent heim – samt orðin bíleigandi og kortið logsveið eftir viðskiptin. Langir voru næstu dagar – að bíða eftir vörunni.
En sem sagt orðin bíleigandi – búinn að fá drossíuna loksins. Nú er ég aldrei heima!

Að parketleggja.
Auja vinkona mín (K.Morgann) hefur lagst í stóraðgerðir í íbúð þeirri sem hún hefur fengið að láni. Mikið hefur gengið á í verelsinu og bauð ég fram aðstoð mína sem sönn vinkona. „Gott“ sagði Auja mín, „þú getur hjálpað mér að parketleggja stofuna.“ Hana nú. Aldrei á ævinni hef ég gert það. Þó hafði ég lúmskan grun um að það væri ekki það skemmtilegasta sem gert væri. Og að til þyrfti útsjónarsemi – rýmisgreind og góðan skammt af þolinmæði. Ekki hef ég verið talin neitt sérstaklega þolinmóð og útsjónarsemin eiginlega í minni kantinum. Rýmisgreindin er minni en tónlistargreindin! Þannig að ég vissi nú ekki hvort ég væri æskilegur aðstoðarmaður til þessa verks.
En komst að því að þetta er ótrúlega mikið mál. Helst blótuðum við því að stofan var ekki rétthyrnt!! Og svo læddist að okkur sá ljóti grunur að það væri skekkja í parketflísunum. En í enda dags vorum við ansi lukkulegar með handbragðið og á meðan á lögninni stóð vorum við duglegar við að hrósa okkur sjálfum.
En það á eftir að parketleggja meira. Er enn að gera upp við mig hvort ég sé svakalega upptekinn þann dag eða ekki! Myndir frá vinnu þessari má sjá hér.