Satellite Internet Service
Hit Counter

4/05/2004

Hlekkir Kennaraháskólans eru farnir að losna einn af öðrum. Eins og fram hefur komið hef ég skilað af mér verkum SKHÍ, ég er ekki lengur í framkvæmdastjórn BÍSN en fæ þó að sitja í háskólaráði og deildaráði fram á sumar - gvöði sé lof!! Próf voru tekin í byrjun mars og vettvangsnámi lauk í dag!! Nú er eftir rétt um það bil mánaðar vinna við B.ed.-pappírinn og þá er ég endanlega flogin úr skólanum - á vit lífsins og ábyrgðar. Níu til fimm dagar taka við og setið heima og heklað verður fastur liður í tilverunni.

Nú um páskana ætla ég að fara norður í þingeyjarsýslu - annarra æskustöðva - telja grænu stráin sem farin eru að smokra sér undan vetri, stökkva á milli steina í gúmmískóm og spjalla við fuglana á milli þess að sofa - borða og skrifa lokaritgerð. Getur ekki orðið betra.

Lífið er lotterí - já það er lotterí...já það er lotterí og ég tek þátt í því

....sem minnir mig á það!! Ég keypti mér lottómiða á laugardaginn. Og um leið og ég labbaði út úr söluturninum (fallegt orð yfir sjoppu) var ég farin að skipuleggja hvernig ég ætlaði að eyða milljónunum sem ég var að fara að fá um kvöldið. Þannig er það að í þau skipti sem ég lotta þá finnst mér ég vera bara þegar búin að vinna og lottóútdráttur vita óþarfur. En ekki sá ég mikið af þessum pening! Var ekki einu sinni með tvo rétta - og notaði ég þó sjálfval. Ætli ég geti skilað miðanum aftur í söluturninn og fengið endurgreitt??