Satellite Internet Service
Hit Counter

3/29/2004

Svona er nú pistillinn á góðri Íslensku. Taka tvö.

Bloggið hefur orðið fyrir svo miklu áfalli við að fá allt í einu svona mikla virkni að það hefur hreinlega ekki vitað hvað væri að gerast.

Búin að kippa því í liðinn.

Ferðasaga

Skellti mér norður um síðustu helgi. Í Skagafjörðinn – Hjaltadalinn – Fljótin.
Mikið óskaplega var það ljúft. Lagt var af stað á fimmtudags eftirmiðdegi ásamt Boggu minni, frænku og æskuvinkonu. Tilefnið var tvennt. Fundur á Hólum og brúðkaup í Fljótum. Ferðin norður gekk áfallalaust og komið var í Brekku fyrir miðnættið þar sem var háð yfir þessa helgi. Í Brekku sem er í hlíðum Viðvíkursveitar býr frænka mín Jórunn ásamt sínum bónda og syni. Þar var tekið á móti okkur með heitri eplaköku og ís að hætti Friðriks “litla” frænda míns.
Var vaknað á föstudagsmorgun endurnærð og útsofinn. Sjaldan sofið eins vel. Að liggja í kyrrðinni og áreitið ekkert nema eitt og eitt tíst í þresti sem átti leið hjá íbúðarhúsinu. Lagt var í´ann á Hóla um hádegið. Og þvílík dýrð – þvílík fegurð að keyra inn Hjaltadalinn og keyra upp síðustu hæðina og við blasir æskustaðurinn umvafinn hvítri hulu vetrarins. Og upp í huga mér runnu minningarnar í gegn. Laufskálarétt, hversu oft hefur maður ekki verið þar í misgóðu ásigkomulagi. Grunnskólinn þar sem skipt var í fótboltalið í frimínótum eftir sveitum, Viðvíkursveitin á móti Hjaltdælingum. Kirkjugarðurinn sem við forðuðumst mjög sérstaklega á veturna. Gamli bærinn sem var miðstöð eltingaleikja sem fram fóru upp á þakinu. Og ekki var hætt fyrr en myrkur var skollið á og svo mikið að einhver datt fram af bænum eða festist í strompnum sem kom nokkuð oft fyrir. Litli “Vembley”, fótboltavöllurinn hjá Búshúsinu, með einu marki. Var fjandi góð í tuddafótbolta!! Og ekki má gleyma skóginum. Endalaus uppspretta góðra leikja.

Tekið var höfðinglega á móti mér af rektor Hólaskóla og hans fólki. Átti áhugaverðan og skemmtilegan fund með þeim og nemendum um hagsmuni nemenda og breytt háksólaumhverfi. Fékk svo leiðsögn um staðinn – hvað nemendur eru að fást við. Brá mér hve uppbygging hefur verið gríðarleg á Hólum og eflaust er ég ekki að taka of mikið upp í mig en það besta rannsóknastarf sem finnst norðan heiða! Gríðarlega spennandi vinna í gangi og heyrðist mér á nemendum þeir vera yfir sig hrifnir af námi, kennurum, skólanum og umhverfinu. Þetta var notarleg tilfinning. Varð stoltur Hjaltdælingur á augabragði.

Laugardagurinn var helgaður Brúðkaupi Maríu, vinkonu okkar Boggu frá því í heimavistarskóla Varmahlíðar. Við frænkurnar eyddum gríðarlegum tíma í að spasla í okkar sprungur og ægirlegur tími fór í föndur við hár. Okkur fannst við vera tímanlega. Vorum mættar í Fljótin korter fyrir brúðkaup en kirkjan á Barði orðin stapp full. Ég hafði orð á því við frænku að það mætti halda að drottningin í Fljótunum væri að giftast. Og þegar brúðurin gekk inn kirkjugólfin þá var það orð af sönnu. Hún sveif hreinlega inn – líkt og álfadrottning. Athöfnin var svo falleg og greinilega þeirra, brúðarhjóna. Halldór, brúðgumi, nýbaðaður og spengilegur og horfði montin á brúði sína. Bifreiðin sem flutti þau brúðhjón á milli kirkju og veislu var ekki af verri endanum, Land Rover jeppi, blár á lit flutti þennan dýrmæta varning um Fljótin. Svo merkilegur er jeppinn að hans og brúðhjóna er getið í Morgunblaðinu laugardaginn 27.mars sl.
Þá tók við ein sú besta veisla sem ég hef tekið þátt í. Klukkan þrjú var blásið til matarveislu þar sem heimaslátrað frá Maríu minni var borið á borð, rautt og bjór flaut um salinn og veislustjórnun til fyrirmyndar. Klukkan sex var gert “hlé” á veisluhöldunum svo bændur komust heim í fjós en klukkan níu var aftur tekið til við að fagna með brúðhjónunum en þá var blár drykkur að hætti Molastaða fram reiddur, nikkan var þanin og sveitungar tilbúnir að sletta úr klaufunum. Þarna var dansað fram á morgun. Eflaust einhverjir sem fóru beint í gjafir en við frænka fórum heim um fjögur að morgni.

Frábær ferð í mína heimasveit. Hitti gamla kunningja og vini. Hef heitið því að eyða sumarfríinu mínu í Skagafirði – búin að lofa því að klára að mála fjárhúsin á Molastöðum.

3/28/2004

Vettvangsnám
Einn stærsti hluti námsins í leikskólafræðum er vettvangsnám. Eru nemar skyldugir í 6-5 vikna vettvangsnám á ári hverju til að reyna nú á fræðin og þekkinguna sem lærst hefur í bóklegum fögum yfir veturinn. Erum við send út með verkefnalýsingar til að framkvæma og oftar en ekki líður manni sem brjálaða vísindamanninum sem reynir kenningar sínar. Og tilraunadýrin eru aumingja börnin sem vita ekki hvað í ósköpunum gengur á. Allt í einu valsar inn til þeirra nemi með hugann fullan af hugmyndum og kenningum, fleyg orð gamalla fræðimanna í farteskinnu og ætla að bjarga heiminum á þessum sex vikum.
Að þessu sinni einkennist vettvangsnámið á ákveðinni kennslufræði og held ég að orðið kennslufræði sé ágætis nýyrði í orðaforða leikskólans. Þetta er nú fyrsta skólastigið!!!
Nú snýr kennslan að þeirri sýn að virkja forvitni og frumkvæði barnsins. Hvað er það sem barnið vill læra? Þessi leið hefur verið kölluð Könnunaraðferðin á íslensku eða Project approach á engilsaxnesku. Fyrir mitt leiti algerlega brilljant námsleið en alls ekki auðveld fyrir kennarann. Sem er jákvætt. Kennarinn þarf að vera vel undirbúinn auk þess víðsýnn, hugmyndaríkur, virkur og jákvæður gagnvart spurningum og virkni barnanna. Hinsvegar ekki auðveld vinna á fimm vikna tímabili í vettvangsnámi þar sem vinna sem slík á að gerjast og taka tíma í hugskotum barnanna. Því er keyrt áfram á fullum krafti og reynt að kreista upp alla þekkinguna, reynsluna, tilfinningalegt gildi og virkni barnsins á þessum tíma. Tala nú ekki um þegar maður er með þriggja ára stýri sem vilja nú helst hanga í gluggatjöldunum.
En þetta hefst allt saman og á ég viku eftir á vettvangi. Þá er nú lítið eftir af námi mínu við KHÍ. Mánuður skreytingar á lokaverkefni og svo reisupassinn út í lífið.

“Langmikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er
löngunin til að halda áfram að læra”
(J. Dewey)