Satellite Internet Service
Hit Counter

1/02/2004

2004

Þá er lífið að falla í sitt venjulega form. Nýtt ár um garð gengið og jólaskreytingarnar farnar að fara í taugarnar á manni. Eins og þær voru nú glæsilegar eitthvað fyrir nokkrum dögum. Eina spennan í lífinu núna er að bíða eftir útkomum úr prófunum sem allt lífið snérist um hér fyrir nokkrum vikum. Þegar maður hélt að himin og jörð myndu hrynja ef ekki væri lesið 10-15 tíma á dag. Þegar allt annað í kringum mann hvarf sjónum og tíminn stóð kyrr. Núna flýgur hann áfram og hefur maður ekki við að gera allt sem á nú að gera í fríinu. En þessum frídögum var helgað lokaverkefni en eitthvað hafa skáldagyðjurnar látið standa á sér. Þar sem mitt lokaverkefni byggist á heimspekismásögum þar ég virkilega á þessum gyðjum að halda en ég reyndi að hringja í þær um daginn en það var alltaf á tali.

Hinsvegar held ég að nýja árið verið bara gott, leggst vel í mig allavega. Nú er hafinn lokasprettur í KHÍ og eru skil á lokaverkefni eftir 17 vikur!!! Hvurn fjandann á mar svo að gera????

En Kapteinninn minn mun renna skútu sinni að íslandsströndum núna um miðjan janúar – ef ekki bara fyrr og mikið óskaplega verður gaman þá. Bændur Bokkuvinafélagsins geta þá aftur farið að hittast og ræða um lífsins gagn og nauðsynjar. Annars hafa þeir gullmeðlimir sem eru á landinu verið að ræða og skipuleggja næsta fund og , ef ég man rétt, er skipulagsfundur annað kvöld!!! Næsti Aðalfundur Bokkuvinafélagsins (Bvf.ehf.) mun verða haldinn með frekar óhefðbundnu sniði í ár – ef við fáum einhverju ráðið en hinsvegar er ekki búið að ræða þau mál við formann félagsins, K.Morgan!!

Ég spái því að mikið verði um barnsfæðingar á árinu – ef marka má upplýsingar á óvenju mörgum jólakortum í ár. Eins gott að fara að byrja að sauma út!

Ég ætla helst að vinna í Lottóinu og gera eitthvað skemmtilegt í sumar. Hef tröllatrú á NY-ferðinni í apríl, enda er ég að fara út með algerum snillingum. Þar skal þræða flóamarkaði – engin fjandans moll takk!! Fátæki námsmaðurinn fer nú bara á skransölurnar. Búið er að skipuleggja morgunmatinn þessa 6 eða 7 daga sem ferðin tekur – Vodkaflaskan verður á náttborðinu. Minn ágæti yfirmaður er nú eitthvað farinn að efast um það að setja mestu villingana saman í herbergi en verðu við fjórar saman. Massa ferð!!!!

Það er alltaf gaman að róla

12/31/2003

Menning

Eftir svo mikil rólegheit – svefn-lestur-át-og dorm var nú ákveðið að taka 30.desember með stæl og vera með afburðum menningarleg. Ég bauð hinum 2ja og ½ árs gamla frænda mínum í leikhús að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Stóri bróðir minn mundi þegar hann hafði, 4ra ára gamall, farið á þetta stórskemmtilega leikrit hér um árið þegar Árni Tryggva lék Lilla og Bessi Bjarna Mikka ref. Minningin var ljúf og ákvað bróðir að koma með ásamt kellu sinni. Spennan var mikil meðal feðga, sá litli vissi ekki hvernig hann átti að vera, og bróðir stundi: “í minningunni var þjóðleikhúsið miklu stærra!”. Svo sátum við þarna og drukkum í okkur augnakonfektið. Framúrskarandi góð uppsetning á frábæru verki. Hin litli frændi sat stjarfur og hafði ekki augun af sviðinu, söng hástöðum með þegar Lilli svæfði Mikka með “Dvel ég í draumahöll.” Þegar kom að hléi heimtaði sá litli meira og var hinn kátasti út alla sýninguna. Við skemmtum okkur konunglega.

Fyrst við vorum orðin svona menningarleg – við systkinin – ákváðum við að draga foreldra okkar út í bíó á The lord of the ring. Og það var sko kapítuli út að fyrir sig!! Nú – bróðir fór strax eftir leikhúsið og keypti miða í Laugarásbíó. Þar var honum vinsamlega bent á að gott væri að mæta um hálf níu (sýning átti að byrja klukkan níu). Við gerum það að sjálfsögðu og vorum mætt rúmlega hálf. Þá var nú kominn slatti af fólki sem stóð frammi í andyri!!! Ekki einu sinni inn í bíóinu-heldur í miðasölunni. Svo var nú hleypt inn í hús en ekki í salinn. Stóðum við svo þarna þar til að þjappaðist um okkur fólk og tíu mín. í níu var opnað inn í salinn. Þá skeði svolítið undarlegt. Spenna myndaðist og tróð fólk sér áfram svo að við hin minni áttum í vök að verjast. Mákona mín greyp í mig og ultum við þarna saman til og frá og týndum restinni af famelíunni. Og allt í einu stóðum við inni í bíósalnum og hamagangurinn og frekjan í fólkinu sem var þarna var með engu líku. Eftir mikið puð að finna okkur sæti saman var svo hægt að slaka á og njóta þessa þriðja meistaraverks Hringadrottinssögu. Og ekki er hægt að segja að konan hafi orðið fyrir vonbrigðum, nei. Alger snilld.
Var það svo dösuð en hamingjusöm famelía sem fór heim – við systkinin og mágkona lukkuleg með menningu dagsins. En litli frændinn svaf heima og eflaust hefur hann verið komin inn í draumheim Hálsaskógs.

Nú er gamlársdagur og dunda ég mér hér við tölvugarminn. Kvöldinu skal eytt hjá bróðir og hans fjölskyldu. Er víst búið að skipa manni að hafa með sér útileguklæðnað því í ár skal farið á brenni en það hefur ekki verið gert síðan við fluttum hingað suður. Áramótagleði eða djamm verður að spilast eftir hendinni. Hef yfirleitt haldið mig heima við á áramótunum en aldrei að vita hvað gerist í kvöld.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt á árinu sem er að líða.
Lifið heil

12/29/2003

Gleðilega hátíð allir saman!!
Eftir gríðarlega próflesturs törn, sem endaði 15.des., tók við tími til að jafna blóðþrýstinginn, koma magasýrunum í jafnvægi, laga svefnröskun og losa sig við taugaspennu. Og allt í einu var 24.desember upprunninn.
Undanfarnir helgidagar hafa verið sérdeilis ljómandi, svefn-lestur-át og umhyggja. Svolítið undarlegt að vakna á morgnanna, stökkva á fætur, skunda inn í bókaherbergi og átta sig á því að það er ekki próf eða verkefni sem að bíða í stöflum. Að vísu skal nú hefjast handa við að leggja hugann í bleyti fyrir komandi lokaverkefni og er ég svona farin að klappa heimspekibókunum þess til undirbúnings.

Vaknaði í morgun og leit út um gluggann – sá ekki neitt – í orðsins fyllstu! Allt var hvítt. Skimaði eftir Perlunni, Kringlunni og Framheimilinu. Hvít hula var yfir öllu. Ég opnaði út á svalir og lagði við hlustir. Heyrði hreinlega ekki neitt nema gnauð í vindi og hviss í snjónum sem hafði loks umvafið höfuðborgasvæðið. Og svei mér þá – mér fannst ég vera komin heim!! Svona var það heima í sveitinni oft á tíðum. Langaði helst að grafa upp gömlu snjóþotuna og ösla snjóinn upp að hnjám.
Indælt var að hella sér sjóðandi heitt hátíðarkaffi í krús, vefja sig inn í teppi og næla sér í góða bók. Svona á frí að vera!

Ég óska öllum gleðilegrar hátíðar og þakka fyrir samleiðina á árinu sem er að líða. Er ekki í nokkrum vafa um að hið nýja ár, 2004, verði afspyrnu skemmtilegt bloggár.

"Við erum englar-englar alheimsins."