Satellite Internet Service
Hit Counter

12/10/2003

Próf og aftur próf!!
Svei mér þá ef ég er ekki að verða búin að moka niður fjóshauginn. Já, tíminn tifar áfram og bögglast ég í gegnum göng fræðimanna og uppeldisvísinda og sjá.....við enda ganganna skín ljósið...próflok. Við upphafs próftímabils hélt ég að þessi tími yrði endalaus. Sá mig fyrir mér sem úttaugaðan námsmann á röltinu inn á geðdeild Landsspítala. En gvöði sé lof og prís, ég ætla að sleppa frá þessu með nokkuð óskaddaða geðheilsu.

Heimapróf!
Heimapróf, við fyrstu sýn, virka afskaplega sakleysisleg og það að geta haft allt námsefnið í kringum sig gefur manni sálarró. En þetta er blekking ein. Já, enn ein blekkingin sem á okkur blásaklausu námsmennina er beitt. Að hýrast heima hjá sér tugi klukkustunda við tölvuna, blaðandi í pappírum og námsbókum, búin að rugla glósunum og netið alltaf að detta út. Drukkið eru margir lítrar af kaffi og hámað í sig allt sem sætt þykir í kotinu.
Slíkt heimapróf átti sér stað í gær. Undirrituð þóttist vera búin að undirbúa sig þokkaleg vel, raða öllum glósum og greinum eftir innihaldi, hella á könnuna og nokkuð sátt við sjálfan sig. Síðan fór nú að renna á undirritaða þegar prófið kom. Beðið var um að skrifa sína sannfæringu og grundvallarhugmyndir að leikskólastarfi. Ja,hérna hér.......... átti ekkert að skrifa um námsefnið?????? Já svona er maður orðin. Þorir varla að skrifa staf um sitt og sína nema með rökstuðningi heimildi, manni fróðari fræðinga. Eftir allmarga kaffibolla og after eight kassa skall á mig ritpúkinn og mín fór að skrifa. Og mín skrifaði og skrifaði. Og eftir 10 ½ klukkustunda vinnu þar sem mínar hugmyndir komu fram, tenging þeirra við uppeldisstefnur og leikskólastarf unnið eftir mínum hugmyndum. Sá síðasti hluti var, að sjálfsögðu, skemmtilegastur en eigi get ég ímyndað mér viðbrögð kennara minna. Því, eins og ég á til, er ég róttæk og byltingarkennd í skoðunum mínum en um leið er ég hreinlega að bjarga heiminum frá glötun!! Djarfar skoðanir með byltingarkenndu ívafi, stórhuga og bjartsýn. Svoleiðis er hinn fullkomni kennari – hvað og hverjum sem hann kennir.

Siðfræði!
Ég er rétt búin að koma mér upp í skóla til að skila af mér mínum róttæku skoðunum á leikskólastarfi þegar hefst undirbúningur að næsta prófi sem er komandi föstudag. Siðfræðin, já siðfræðin. Skemmtilegt fag en um leið einhvernvegin vonlaust að læra undir svoleiðis próf. Er enn að jafna mig eftir að hafa lesið stórmerkilega grein: Accounts of Cases That Have Shaped Medical Ethics, with Philosphical, Legal, and Historical Backgrounds sem er úr bókinni Classic Cases in Medical Ethics. Þar er verið að útskýra vísindasiðfræði og rekin saga skelfilegra rannsókna á mönnum í seinni heimstyrjöldinni. Sit ég hér með ekksog og snýti pappír og skammast yfir siðblindu og mannréttindabrotum.

Svakalega getum við verið grimm!!

12/08/2003

Til meðlima Bokkuvinafélagsins!!
Á bloggi Kapteins er að finna síðu sem kallast "spjall" þar hafa Bokkuvinir, hvort sem er gull-,silfur- eða bronsmeðlimir, látið skoðanir sínar í ljós. Nú er uppi umræða sem kallast "Framtíð Bokkuvinafélagsins" og eru menn að íhuga hvenær megi blása til næsta fundar. Endilega lítið þar inn og commentið á......ekkert gaman að það séu bara alltaf sömu sítuðandi skarfarnir sem eru með athugasemdir.

Lifið heil, kæru félagar og lifi byltingin!!!!!

12/07/2003

Eitthvað er nú ójólalegt úti. Óttalegt vorveður bara. Það er kannski ágætt miðað við aðstæður, allavega hjá mér. Hef ekki snefils tíma til að velta hátíðum, jólagjöfum eða skreytingum fyrir mér þessa daganna. Já – próftími í algleymingi og allt að gerast. Hver var það sem að sagði að próf væri besta námsmatið??? Hver sagði að það væri gaman að vera í skóla?? Hver var það sem að sagði að þetta væri ekkert mál??? Gaman væri að fá svör við því. Allavega veit ég að próf eru ekki endilega besta námsmatið. Það sem er ætlast til að maður muni ....... það er alveg ótrúlegt. Þessar þrjár heilaselur sem ég hef til afnota eru úrbræddar – nú þegar – og beðið hefur verið um aðstoð....en bergmálið í kollinum á mér yfirgnæfir hjálparbeiðnina.
Búin með tvö próf af fimm og nú þegar finnst mér að þetta sé bara búið. Kannski vegna þess að þau tvö próf sem liðið hafa hjá eru þau mikilvægustu og erfiðustu. Nú veltist sú þekking um kollin á mér og mixast saman Aðalnámskrá leikskóla, þroskastig barna í einingakubbum, aðleiðsla, z-gildi megindlegrar aðferðar, réttmæti og ályktunartölfræði. Og lítið rími fyrir komandi próf, hugsmíðahyggju, hugmyndafræði leikskólakennara, framsækin uppeldisstefna, siðfræði kennarans og fjölmenning.

Eins og vanalegt er árleg laufabrauðsgerð í desember og gekk ég í gegnum það í gær. Hér flugu laufabrauðskökurnar, útskurðahnífar, hangikjöt og uppstúfur. Ágætis afsökun fyrir því að vera alls ekki að læra, eins föstudagskvöldið – jólagleði á besta vinnustaðnum. Tveir Jóla-Tuborg og góður matur gerði kvöldið fullkomið. Já, tveir Tuborg!!!!! Farin að förlast í drykkjunni......bæti það upp í vor!!
En komin er sunnudagur.......og engin afsökun fyrir að sitja ekki velúfin yfir skruddunum og mér er ekkert að vandbúnaði en að hefjast handa.

Gleðifréttirnar eru samt þær að K. Morgan ætlar að koma heim eftir jólin!!! Ég vissi það nú, gamli afdalabóndinn, að Kapteinn væri orðin það aldraður að hann gæti ekki verið svo ýkja lengi í burtu frá fróninu og fagnar bóndinn komu Kapteins. Hans hefur verið sárt saknað og verður gott að setjast niður með gömlum sjóara og heyra ýktar hetjusögur, ræða heimsmálin – pólitíkina og óréttlætið. Sötra á sterku kaffi með útí. Rölta saman miðbæjarhverfið, fussa og sveia yfir nútímanum og ákalla liðna tíma. Jah, skratti verður gott að fá gamla karlin heim!!!