Satellite Internet Service
Hit Counter

9/24/2003

Það kom að því!!
Já það kom að því að undirrituð verður að éta ofan í sig eitthvað af sínum öfgakenndu skoðunum. Alltaf lærir maður af reynslunni. Kannski er betra við og við að stoppa við örlitla stund og velta fyrir sér orsök og afleiðingum orða sinna. Afleiðingarnar bitna eingöngu á mér nema kannski þeim sem tóku tískupistil minn alvarlega hér í júní s.l.. Já, konan er komin í támjótt. Svo svakalega támjótt að hún hrasar í hverju skrefi um mjóu tánna sem stendur lengst út á götu og er ekki í neinu samræmi við stærð konunnar sjálfrar. Fyrir vikið lítur hún út eins og uppgjafa hirðfífl. Já,já. Konan veslaði sér svona támjóa, háhælaða skó og sprangar nú um á þeim eins og hún fái borgað fyrir það. Alveg merkilegt hvernig maður lætur bylgjur tískunnar hafa áhrif á mann þó að spyrnt sé við fótum, reynt eins og rjúpa með harðlífi, að falla ekki í hið fullkomna “norm” sem markaðsetningin gefur okkur. Fyrir utan það að vera farin að ganga í támjóu þá fór undirrituð í klippingu. Fyrir “normal” einstakling þykir það ekkert tiltöku mál en fyrir þennan einstakling var að mikið skref og hefur vakið heimsathygli meðal vena og vandamanna. Ákveðið var að þessu sinni að sleppa greiðunni og eldhússkærunum og skella sér á hárgreiðslustofu. Það var ekki einungis út af hugdettu, heldur helst af þeim sökum að eini almennilegi klipparinn beggja vegna atlandshafsins hefur hafið störf aftur, hún Maggý mín. Já, ljúft var að halla sér aftur í stólnum og segja “þú ræður þessu, Maggý mín”, ræða um daginn og veginn, sötra á kaffi og njóta þess um stund að láta einhver annan sjá um mann og finna þreytuna líða úr sér í sveitalofti Grafavogs. Fyrir vikið; allt annað að sjá konuna, komin með “pönk” greiðslu sem er víst svakalega móðins í dag samkvæmt heimildum klipparans og veit undirrituð varla hvernig ber að haga sér svona glerfín eins og hún er orðin – með hanastél og strípur!


Skólalífið gengur sinn vanagang; kvíði, óöryggi, vanlíðan, niðurgangur, pirringur, kvikindisskapur, vanáttartilfinning, taugaveiklun, magasár, höfuðverkur, vöðvabólga, móðursýki, uppgangur, fíflalæti, hamagangur og tímaleysi einkennir lífið og tilveruna, allt eftir bókinni. Mikið svakalega væri leiðinlegt að lifa öðruvísi!!

9/21/2003

Þvílík og önnur eins andleysa er nú varla vel finnandi hvort leitað væri norðan, austan eða vestan heiða. Enda vita vonlaust að ætla sér til langferða núna í þessari ömurlegu tíð. Svakalega er þetta óþægilegt að hafa svona glimrandi sumar og svo allt í einu er bar skellt á mann helvítis norðan garra og leiðindum. Ekki komin október og maður er komin með rautt nef og háræðaslitnar kinnar. Hvernig verður þetta?? Þetta er eins og maðurinn sagði: Okkur hefnist fyrir þetta góða!! Er það ekki íslenski bragurinn? Eitthvað gott hendir okkur og þá eigum við von á því versta, Hekla fer að gjósa eða einhver andskotin annað.

Andleysi- Andleysi, endalausar lægðir og þrýstilínur. Alveg fæ ég magnað samviskubit þegar ég lít við á síðu þessari og sé á Teljaranum mínum hve margir eru búnir að kíkja við og konan bloggar ekki baun. Og ég lofa alltaf öllu sérdeilis fögru í hverju bloggi, þannig að ég ætla ekki að lofa neinu að þessu sinni.

Skólatetrið á hugann allan og er svo komið að ég hef gefið út þá tilkynningu að konan mun ekki eiga sér neitt líf fyrr en hugsanlega næsta vor. Þannig að þeir sem vilja bjóða henni á többerver kynningar eða nærfatasýningar verða bara að bíða með það. Annars má segja að ég hafi verið óþarflega öfugsnúin svona undanfarið. Sem dæmi þá var ég stödd í gleðskap hér um daginn sem er svo sem ekkert frásögu færandi nema það að gleðskapshaldarinn þurfti nú endilega að bera það undir gestina í hverju hann (hún) ætti að fara í út á lífið. Dró hún fram tvo ansi smekklega boli. Það er að segja öllum fannst báðir bolirnir smekklegir nema mér. Fór svo daman í þá og voru allar sammála um að hún hætti að fara í þeim rauða sem mér fannst nú alls ekki. Var svo úr að vinkonan valdi þann sem mér mislíkaði. Allt kvöldið gat ég þrasað og þusað yfir flíkinni og talið þennan (ágætis) bol herfilegan, ósmekklegan, kellingarlegan og komst svo að þeirri skemmtilegu niðurstöðu (að mér fannst) að þessi herfilega flík væri örugglega saumuð úr gömlum dúk því það var svona munstur á honum. Með eindæmum skemmtilegur félagsskapur ég! Eins var nú með bekkinn minn. Nú er farið að huga að útskriftarferð og var svona verið að kanna hverjir hefðu nú áhuga á því að fara. Og með tilþrifum sveiflaði ég blaðinu sem var að ganga fram hjá mér og hef gefið þá yfirlýsingu að ég hafi bara ekkert með það að gera að þvælast með þeim eitthvert út fyrir landsteinana. Er þetta einhver hemja að láta svona?

Kannski er það húfan!!! Já kannski er það komma húfan sem ég fékk að gjöf frá K. Morgan sem ég ber með miklum tignarleika og virðingu. Maður veit það aldrei. En húfan er góð!! Og segir allt sem segja þarf - sjón er sögur ríkari!!

Lifi byltingin!!!