Satellite Internet Service
Hit Counter

5/03/2003

Gluggaveður!!
Útskýring: Þegar þú vaknar við líflega geisla sólarinnar sem leika sér að því að glitra á nefbroddi þínum vaknar þú einstaklega hress og til í allflest. Sönglandi og raulandi vippar þér framúr, tekur létt dansspor fram á baðherbergi og reynir á einhvern mögulegan máta að ráða við hárið á þér. Í tilefni dagsins gefst þú upp og hugsar: “jæja, því má lubbinn ekki vera í takt við skapið, hresst og ferst?” Þú ert svo klæddur og komin á ról og vegna þessa stríðnislegra geisla fyrr um morguninn klæðir þú þig í takt við geislana og skapið, sandalar og sólgleraugu og sumarjakkinn sem þú keyptir út á Bene 1998 dregin út úr skápnum. Þú hleypur niður stigann og raular “er sumarið kom yfir sæinn” í G-dúr en bíðum við... útidyrnar rifnar upp og þú dregur djúpt inn ferskan sumarylinn.........PÆNG!!!!!!! Þú færð hóstakast þegar ískalt loftið frystir á þér nasirnar, hálsinn og lungun kvarta og kveina, gæsahúðin sprettur upp eftir bakinu og þú flýtir þér að loka hurðinni!! Hver ansk........ þú nuddar augun, skoðar aftur út um gluggann, var mér að dreyma???? Nei, nei, sólin brosir við þér og laufin á trjánum hamast við að stækka og dafna..... opnar aftur út en varlega í þetta skiptið, heldur uppi vísifingri og laumar honum milli stafs og hurðar. Jú...... þrátt fyrir glæsilegt útlit veðurs og út um gluggann er að sjá ágætis mynd sem mundi prýða vel framan á konfektkassa....er skítakuldi úti. Ef þú gáir betur til sólar sérðu kaldhæðnislegt glott hennar og jafnvel hvar Kári gamli gægist á bak við hana. Já, samantekin ráð veðurguðanna...... íslendingar vilja sól..... sól fá þeir.....en......starfssamningur Kára gamla er samt ekki útrunnin.
Svona er gluggaveður!!

Annars verður það ekki mikið lengra að sinni. Vil þá minna lesendur á að enn einn snillingurinn hefur bæst við í hópinn.......Sérann, með afburðum gáfaður, með bændablóðið í æðum frá tímum forveðra sinna að norðan (Höfðabónda finnst það framar öllu að vera að norðan), faxmikill og tígulegur, með einstakann húmor og predikanir dauðans. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur hann bjargað heilsu bóndans og reynst honum sannkallaður venur. Predikanir Sérans eru með eindæmum og sjaldan slær í messuvín hans..... Bíð ég hann hér með hjartanlega velkomin í snillingadálk bóndans og efast ég um að það sem hamrað verður á þá bloggsíðu verði leiðinleg lesning......en lofa skal ég hins vegar því að ef Sérann fer út í öfgar í predikunum mun bóndinn segja.”....obb bobb bobb.......stopp nú séra minn.... hvar er messuvínið?”

Gleðilegt gluggasumar

5/02/2003

Síðasta verkefninu lokið.......sko síiiiiiiiiiiiðasta verkefninu lokið.

5/01/2003

Gleðilegan fyrsta maí!!!
Nú á stelpan að vera með augun límd ofan í skólabækurnar og einbeita sér að komandi prófi sem er á mánudaginn. Síðasta vika hefur einkennst af stressi, verkefnavinnu, verkefnaskilum, móðursýki, flensu, reiði vegna vonsku heimsins, óákveðni og svo þessum almennu kvillum (helvítis giktin að drepa mann).
Nei – já. Skil voru á verkefnum síðustu viku og vegna kæruleysis í útlöndum um páskana var stelpan náttúrlega með allt á hælunum (eins og vanalega bara) og lét hún misskilning og vitleysu stressa sig upp. En ljósi punkturinn var nú þó sá að nú þessa síðustu daga hefur stelpan verið svo veik af flensunni að ekki hefur verið möguleiki að hrista upp í henni stressinu. (Pollý Anna) Reiði vegna vonsku heimsins er helst sú að brotist var inn í Kennaraháskólann á dögunum og náttúrlega látið greipa sópa af skrifstofu stúdentaráðs svo eftir stöndum við slipp og snauð. Önnur vonska heimsins er sú að Kapteinninn minn er að hrökklast úr stjórnklefa sínum og vona ég nú innilega og bið til guðs og æðri mátta að hann lendi ekki á fleka einhverjum út á miðju hafi. En ég efast ekki um að Kapteinninn reddi þessu sem og öllu öðru sem hann tekur sér fyrir hendur því hann er einn sá almagnaðasti Kapteinn sem um betur og vil ég nota tækifærið og þakka bara fyrir allar þær unaðsstundir sem ég hef átt í brú Kapteinsins stendur alltaf mínar fjósdyr opnar fyrir honum.
Jú, á nú stelpan að vera að lesa námsbækurnar en einhvern veginn vill hugurinn ekki festast við þær heldur berjast um í mér pólitísk málefni sem tengjast menntunar og hagsmunarmálun íslenskra stúdenta....... vá... er ég ekki komin yfir línuna......veit það ekki. Sit ég hér sótrauð í framan og þusa og sveia yfir bréfaskriftum við fleiri í svipuðum þönkum og ég .
Annað mál sem hefur tekið allan huga frá bókunum en er það lokaverkefnið mitt sem ég þarf að skila í MAÍ Á NÆSTA ÁRI!!! Ágætt að vera tímanlega....... (Pollý Anna).
Er ég búin að koma ár minni vel fyrir borð í tengslum við það og vil ég nú helst bara fara að lesa og framkvæma. Ekki verður gerð hefðbundin lokaritgerð (hvenær er ég hefðbundin???) heldur kennsluefni fyrir leikskólakennara í tengslum við félagsfærni barna með aðstoð heimspeki og innri athuganna (fókusing). Svakalega spennandi.
En helvítis skruddurnar bíða..og bíða... verða að sinna þessu.

lifi byltingin!!!!

Gunnur

4/28/2003

Nei nú er mér bara allri steinlokið!!! Í janúar og febrúar arkaði flensann in´n á gafl landsmanna og lágu sumir ansi svartir í því. Síðast liðna tvo vetur hef ég getað státað mig af því að vera alveg vita laus við flensuskrattann og hef talið það vera endalaust norðlenskur hraustleiki og lýsistaka til margra ára (eða þannig). Nú á þessum síðustu og verstu annatímum er ég á kafi í verkefnaskilum, nú skellur á lestrarfrí fyrir próf á hinn daginn og er próf hjá mér á mánudag eftir viku. Gott og vel. Þurfti ég að einbeita mér allsvakalega að verkefnum og dúlleríi nú um helgina og hef ekki mátt slaka á taumnum til að endar næðu nú saman fyrir mánudag. En hvað gerist í miðjum önnum???? Hefur flensu skrattinn séð út að hér hefur ein kotrosk sloppið undan miskunarleysi hennar og ákvað að banka upp á hjá stelpunni. Hef ég því setið nú í tvo daga með rennandi hor og tárvot augu, til skiptis kófsveitt eða blá úr kulda fyrir framan tölvuna og pikkað inn einhvern lifandis ósköp af fróðleik.....allavega vona ég innilega að eitthvað vit hafi nú komið á milli hnerra. Mikið svakalega verður nú samt leiðinlegt að þurfa að afsaka sig við kennarann og biðja hann vinsamlegast að horfa fram hjá ummerkjum hnerra og kvefskíts á verkefnum. Er stelpan búin að setja einhver ósköpin af verkjalyfjum og drasli ofan í sig og næsta mál er á dagskrá að gúffa sotlum hvítlauk niður í kverkarnar. En betra er nú að bíða með það fram yfir morgundaginn þar sem stúdentaráðsfundur er á morgun og frekar óæskilegt að formaðurinn sé eins og angandi draugabani. Verður parkódínið að vinna sína vinnu fram að hvítlauksvaktin sem verður eigi seinna en um kveldmat annaðkvöld.

Kæra fólk¨!!! Til lukku með heilsuna.