Satellite Internet Service
Hit Counter

4/18/2003

Alveg er það nú dæmigert að á strendur frónsins skella veðurguðir blússandi veðurblíðu og steingleyma gömlum skarfi sem ákvað að missa af páskahretinu í ár. Fjandans kuldi bara hér á slóðum Margrétar vinkonu og var bara ullarbrókin dregin upp úr kofforti bóndans í morgun.

Farið var í vaxmyndasafnið í dag og skemmti sá gamli sér konunglega þar, sérstaklega í kjallaranum þar sem horrorinn var geymdur og fór karl margar ferðir þangað niður og kom alltaf jafn fölur upp aftur. Annars hefur þessi langi föstudagur liðið ágætlega þó að karli finnist hann vera jafn langur hér og heima á fróni.
Sturtumenning dana er alveg fínt umræðuefni!! Sumstaðar er það nú þannig hér í verkamannabústöðunum að sturturnar eru í kjallaranum og var gamla farið að kvíða fyrir að þurfa kannski að hökta niður margar hæðir til að skrúbba af sér en sem betur fer býr danska spúsan það vel að sturtan er í íbúðinni.......fyrir ofan klósettið!!!!!! Já maður getur setið á tojinu, verið að busta sig, raka leggina og plokka augabrunirnar um leið og maður skrúbbar af sér! Þægilegt??? Ég veit það ekki!
Hefur gamli komist að því að sérdeilis ljómandi gott er að fá sér kríu yfir dönsku fréttunum og eru kríur karlsins alveg hreint í kippum. Þannig að sá gamli verður endurnærður og brattur þegar heim verður komið einhverntíman í næstu viku.

Hér botna ég K.Morgan....

Mér er sama hvar ég lendi þegar ég dey,
mér er sama hvar ég lendi þegar ég dey,
því ég á vini á báðum stöðum sem að bíða mín í röðum
mér er sama hvar ég lendi þegar ég dey.

Lukka að lifa

4/17/2003

God aften!! Im calling from danmark!!!!Sælir kæru félagar og gleðilegan skírdag!
Jæja, þá er maður nú komin í ríki Margrétar danadrottningar eftir ágætis ferðalag í gær en biðin eftir spúsunni var full löng fannst karlinum. En flugið yfir hafið stóra tókst bara nokkuð vel þó að greinilega var flugfákurinn komin til ára sinna og hristist gamli og skalf meirihlutann af leiðinni. Eftir komuna til Kastrup var tekin lestin niður í bæ og draslinu hent í geymslu og farið á röltið um götur og stræti kóngsins köben. Sól og blíða blasti við karli og var það gamall bóndi frá íslandi sem rabbaði óvenju léttur á fæti á Rådhuspladsen, pantaði sér einn góðan öl og brosti framan í menn og dúfur sem áttu leið fram hjá karli. Eftir að hafa spjallað við gárungana um lífsins gagn og nauðsynjar var nú haldið á Strikið og aðeins litið inn í þær vélabúðir sem karli þótti tilkoma. Og áleiðis gékk karl og gékk og endaði á þessum líka frábæra stað, Nyhavn, sem er við einhverja lækjasprænuna. Þar eru þessir líka fínu knæpur alveg í röðum og átti karl í vandræðum með sig að stoppa ekki við þær allar. Fólk sat úti í sólinni og á steinum og berri grundu, já bara þar sem hægt var að tilla niður botni. En mikið líf og fjör var um stræti og tork hreppsins og undraði ég mig nú á því af hverju að því stæði. Komst síðar að því að hún Margrét, Magga gamla, danadrolla átti afmæli í gær, blessunin. Þessvegna var nú ekkert skrítið þó að hún hafi ekki svarað þegar ég droppaði við hjá henni, sjálfsagt verið að smóka sig einhverstaðar í sveitasælunni. Nú kallin leit við svona á helstu stöðum, fór á Thorvaldsenmusium sem var alveg sérdeilis ljómandi gott. Nú, senn leið nú dagurinn að kveldi og eftir ágætis pulsu og øl ákvað kall að stytta stundir sínar í Tívolíinu sem var svo sem alveg ljómandi..... átti von á því svakalegra en..... erfitt er nú að gera gömlum karli til hæfis sem hefur nú séð það svartara og lengi mígið í saltan sjó. Um hálf ellefu í gærkveldi var svo farið að búa sig á lestarstöðina þar sem spúsan danska átti senn að koma. Karl orðin þreyttur og kaldur á þramminu en nei,nei, eitthvað fór nú úrskeiðis hjá spúsunni og fékk sá gamli þær upplýsingar að spúsan kæmi ekkert fyrr en um hálf eitt um nóttina. Þá var mínum alveg lokið og skreið inn á kaffihús á lestarstöðinni og pantaði sér tvöfaldan expressó. Sat svo og beið, beið, beið og beið. En reyndi þó að sjá ljósu punktanna í þessu, þarna var kjörið tækifæri að fylgjast með furðuverum danskrar nætur og var ansi mikið að furðulegu, undarlegu, ljótu, fullu, vitlausu fólki sem gengu fram hjá karli til að ná síðustu lest heim. Kom loks spúsan og voru fagnaðarfundir ógurlegir. Er ekkert að fara út í smáatriðið neitt en leiddi sú danska gamla íslenska hruminn heim til sín.

Í dag var yndislegt veður og farið var í að skanna svæðið sem spúsan danska býr í. Þetta er nú svona í ekki alveg eins nærri bænum og ég hélt en alveg í góðu. Gamalt og rólegt hverfi með "sjarmerandi" byggingum. Farið var í garðana, sólin sleikt og drukkin øl. Eftir ágætis skund þurfit svo spúsan að skella sér í vinnuna en gamla hróið æfði dönskuna í súpermarkaðinum. Annars er lítð hægt að gera hér í dag þar sem, jú, eins og heima á fróni er flest lokað. En karl rölti síðan heim með vörurnar og var þá svo skratti þreyttur eitthvað að hann lagði sig yfir dönsku fréttunum... sem var einstaklega notarlegt. Hefur karl síðan sinnt heimavinnunni, vaskað upp og farið út með ruslið. Spúsan fer nú að koma heim og á flakki sínu hér um nágrenið í dag fann gamli hverfisknæpuna og ætli hann reyni ekki að tæla frúnna með sér í örlítinn ölsopa fyrir háttinn.
Meira síðar.....


Kæru félagar, lífið er leikur.


P.S. Samviskusamlega verslaði ég nokkur póstkort á á þau ritað til víkinganna heima fyrir og er nú næsta mál á dagskrá að finna póstmanninn, fann hann ekki í gær.

4/16/2003

Gleðilega páskaviku!!!!!!!!!!!
Já, farið var í páskafrí í dag og ekki er maður frá því að konan hafi verið óvenju létt í spori og syngjandi kát í allan dag. Eftir afskaplega misjafnar kennslustundir var farið heim og pakkað niður í tuttugasta skiptið!!!! Eða allt að því. Get svo svarið það að það hafa farið ansi margir umgangar af fötum og dressum í töskuna góðu og alltaf er rifið upp úr henni aftur nokkrum mínútum eftir að hafa ákveðið að svona skal nú hafa það. Það sem er nú mesta málið í töskumálunum er fjandans páskaeggið sem ég fékk í verlaun fyrir blússandi smekklegan klæðaburð í partýi sem haldið var upp í Kennó um síðustu helgi. Og skal nú burðast með báknið (No 7.) til danaveldis og jórtra á Nóa og Siríus yfir hátíðirnar. En jú, konan er að fara í flug kl:7:30 að staðartíma í fyrramálið og er ferðinni haldið til Kóngsins Köben. Hefur af þeim sökum konan verið vita friðlaus í allan dag og slegið öllu upp í anskotans kæruleysi. En það var nú heldur betur komin tími til, skal ég ykkur segja.
Nú!!! Eftir glæsilega lendingu á Kastrup skal lestast niður í bæ, skella draslinu í geymslu og brokka heldur tígurlega um stræti, torg og strik borgarinnar. Líta inn á eina og eina knæpu og jafnvel versla sér svo sem eina pylsu.....ekki með öllu!!! Því gestgjafinn sjálfur verður ekki til viðtals fyrr en um kvöldið.
Hef ég lofað gárungum mínum að vera í látlausu sambandi við frónstrendur og mun ég eftir fremsta megni reyna að lemja inn hér einhverjum smellnum sögum af konunni því ekki er nú von á öðru en að einhver ævintýri (gerast enn) hendi kellu!
En baðið bíður.

Gleðilegt páskaeggjaát!