Satellite Internet Service
Hit Counter

2/13/2003

Jæja upp kom nýr dagur – með andfælum- í morgun og alveg vita fjörfiskalaus. Þannig að nú er hægt að taka fjörfiskinn alveg út af dagskrá. En ekki gleyma að borða rækjur og spínat, krakka mínir.
Nú sit ég hér í bókasafni Kennó og læt tímann líða því að stúdentaráðsfundur er á næsta klukkutíma og ekki er nennan nægjanleg hjá dömunni að skokka heim á milli.
En á meðan blogga ég og blogga og er það búið að taka mig tvo daga að læra að setja svona linka og snillinga eins og þig sjáið nú hér til vinstri.
En senn líður að júrókvöldi, þ.e. undarþágukeppni íslendinga í júró. Í mínum ágæta bændavinahóp hefur eilíft verið mikill júróáhugi og heitar umræður um allt sem þessu dæmi við kemur. En af einhverjum ástæðum endum við alltaf í því að rifja upp það gamla og góða sem einhvernvegin virðist vera miklu betra en er í dag. Gleðibankinn rúllar og Páll Óskar er alger hetja!!!!!!
En nú er horft til laugardagskvölds og skal þá upp lyfta glösum og gæða sér á góðum mat yfir beinni útsendingu frá Háskólabíói. Er búið að grafa laxinn og skjóta hænsnið. Verður svo hafist við að malla og elda heima hjá K.Morgani eldsnemma á laugardegi.
En fundurinn bíður. Lukkandi líf.

2/12/2003

Ég vil nota tækifærið og þakka allan þann stuðning sem mér hefur verið sýndur í vandræðagangi mínum með fjörfiskinn.
Sérstakar þakkir fá K. Morgan fyrir hugulsemina og henni Bertu, vinkonu minni, sem nota bene fræddi mig á því að ástæðan fyrir fjörfiski er skortur á magnesíum....sem að maður fær í fæðu eins og rækjum og spínati. Og líka í súkkulaði ef maður passar sig á því að borða ekki of mikið af því. Þannig að við þessar upplýsingar þá er ég búin að sjá það að rækjusamlokan sem ég fékk mér í hádeginu hefur þennan líka lækningamátt!!!
Félagar, takk fyrir.

Hér er einn almennilegur vitleysingur

Til allra lukku hefur minn ágæti fjörfiskur ákveðið að yfirgefa augabrúnina, hægra megin. Ég var farin að örvænta þar sem skólasystur mínar hræddu mig óspart á svakalegum fjörfiskasögum..... einn afinn var víst með fjörfisk látlaust í 30 ár. Og var ég nú ekki alveg tilbúin að sætta mig við slíkt. En eigi skal nú strax hrópa sigurviss.....
Þessi ágæti miðvikudagur er búin að vera ansi annasamur. Skóli, fundir og undirbúningur fyrir komandi árshátíð Kennaraháskólans hafa tekið alla mína orku og athygli síðan við sólarupprás :o)
Ég er nú enn að reyna að læra á þessi blogg mál og fikra mig áfram í leit að fullkomnunar þessarar síðu en það gengur nú frekar hægt og eitthvað eru tæknileg atriði eitthvað að þvælast fyrir mér. En þetta kemur nú vonandi allt með þessu kalda.

Nú er ég á fullu að undirbúa eitt stykki ferðalag til Grikklands en ég ætla mér að vera þar um næstu helgi. Ekki það að ég fái að vera í einhverskonar fríi. Nei,nei – stanslaust púl – fundur ofaní næsta fund. En Grikkland er Grikkland og ég mun nýta mér hádegis – og kaffitíma til að hlaupa um götur Aþenu og leika augnabliks túrista.

En nú skal taka skeytin.....

2/10/2003

Hvernig í ósköpunum læknar maður fjörfisk???
Er búin að vera með fjörfisk í hægri augabrúninni í tvo daga og þetta er að gera mig brjálaða!!
Snökkt, snökkt.

2/09/2003

Í dag var dýrðardagur. Blússandi blíða og hlussu snjókorn. Þar sem ég var í afskaplega góðu skapi ákvað ég að rölta mér út og anda að mér vetri konungi. Vísu fór ég nú ekki langt til að byrja með, heldur stökk yfir næstu girðingu í kaffi til aldagamals félaga – Sir K. Morgans. Eftir mikla kaffidrykkju og spjall um lífsins gagn og nauðsynjar s.s. átaka mikið nefrennslis leiðindi Kapteins rölti ég mig um miðbæ Reykjavíkurhrepps. Þar á rölti mínu rifjuðust upp margar góðar minningar frá mínum yngri árum. Ég hef haft því láni að fagna að hafa kynnst ótrúlegum persónum og þegar heim var komin tók ég til við að grafa upp endurminningar sem ég ritaði sem fyrrum óðalsbóndinn, síðar kotbóndinn Gönni. Er hér eftirfarandi eilítill úrdráttur úr þessum endurminningum mínum:

Sögu vil ég segja stutta um víkinga vorrar þjóðar er ég man mest eftir og hafa ætíð skarað fram úr hvar sem þeir hafa drepið niður fæti.
...Ber þessi víkingur nafnið Víglundur, upp á síðkastið kallaður Villi, og var stórbóndi á Njálu í Reykjavíkurhreppi. Var ég þess vel afnjótandi að vera sambúandi Villa um tíma og var þá hjá okkur heljar búskapur og var sauðburður með eindæmum og grasið aldrei safaríkara. En Víglundur þessi hefur nú hætt búskap, enda eigi skrítið, því spúsa hans var farin að taka allan hans tíma. ...Svo karl seldi jörð sína og kotræfilinn og stundar nú heilsuböð og andlegar hugleiðingar um víða veröld.
... Þá er að segja frá öðrum víkingi. Þessi víkingur er kvenskörungur mikill og var lengi vel ráðskona hjá stórbændum í Reykjavíkurhreppi. Er þetta Margrét ráðskona. Í fyrsta skipti er ég hitti Margréti og sagði henni skemmtisögur á Grettisbæ, þar sem hún var ráðskona, þá lá við mér hjartastopp og andateppu því hláturinn hennar Margrétar minnar er ógurlegur. Og svo hló hún að postulínið á Grettisbænum lág við broti. ... Ætíð hefur Margrét mín verið fyrst til er bokku vökva var hellt í glösin og mundaði þá gamla gítarinn sinn sem hún erfði eftir langa-langa afa sinn (Sigurð stórkaupmann á vammstanga) og söng með blíðri sópran rödd um suðrænar strendur og íslenska trjálundi. ... En nú hefur hún losað sig við ábyrgð bændanna og hefur stofnað heimili í París og sér til þess að frakkarnir séu vel til fara.
... Þá víkur sögunni að óðalsbóna einum. Sá ber langt nafn og stóran titil: Sir Kapteinn Auðunn Morgan á Suðurhafsskútunni (K.Morgan). Hjá þessum víkingi hefur aldrei verið lognmolla og er hann eflaust sá óheppnasti af öllum víkingum. ... hefur þjáðst af skorpulifur alla tíð síðan hann fór í Víking til Noregs hér um árið. ...Það yrði allt of langt mál að segja frá því hvað Kapteinn hefur gert um dagana og eflaust auðveldara að segja frá því hvað hann hefur ekki gert. ... Kapteinn þessi hefur alltaf verði glaðlegur og lífsgleðin geislar af karli. Hann – eins og Margrét, hefur mikið dálæti af söngvum og hefur mikla og djúpa bassa – viskí rödd. ... Hann sá lengi vel um búið á Grettisbæ en hann eins og áðurnefndir víkingar hefur enn og aftur farið í Víking og renndi fleygi sínu til suðurhafa. Stjórnar hann áhöfn sinni af krafti og festu. ... En Kapteinn Morgan syngur á dekki og er það von mín að hann haldi því áfram á meðan við báðir drögum andann.
...Þóroddur er svo einn víkingurinn. Hár að vexti og lengi vel mjög framstæður. En hefur hann kreist það af sér og er hinn stæðilegasti. Hann er einn sá brosmildasti víkingur sem ég hef hitt um dagana og með eindæmum orðheppin og söngelskur. Lengi vel var hann kotbóndi en hefur nú heldur betur komið sér upp stórbúi, með ráðskonu og öllu saman.
... Ég held að ég láti staðar numið nú. Ekki það að ég þekki ekki fleiri skörunga eins og: Íngríður Skordal, blómastúlka, Sunni, Dóri húsfluga (týndur í skrúðgörðum Reykjavíkurhrepps) og fleiri og fleiri.

Halló!!!!!!!!!!!!
Þar sem ég rembist sem rjúpan við staurinn að vera móðins er ég líka komin með svona cool blogg!! Allavega segja spekingarir mér að þetta sé alveg meiriháttar flott.
Ætli tilvist þessa bloggs míns verði ekki í formi ígrundunar, skemmtilegum sem leiðinlegum frásögnum svo og heimsklassa fréttum.
Eina sem ég get svo sem sagt ykkur að sinni í fréttum er bara það að ég sit hér með bullandi hjartslátt yfir því að smella nú ekki á neina vitleysu hérna og allt verði svart á skjánum hjá mér. En það væri svo sem alveg dæmigert en maður er nú að verða svo vanur óhefðbundnum atvikum að maður tekur orðið öllu með einstöku jafnaðargeði....... not!!
Nú - ég mun svo halda áfram, í gervi rjúpunnar, að gera þetta blogg mitt kannski meira aðlaðandi og skemmtilegt.... svona með jafnaðargeðinu.
Á meðan skulum við lofa að byltingin lifi.